Skólastefna

Traust - Virðing - Ábyrgð - Umburðarlyndi   

Lög og reglur
Skólastarf í Bolungarvíkurkaupstað skal grundvalla á þeim lögum og reglum sem gilda í starfsemi viðkomandi skóla. Hver skóli setur sér sína skólanámskrá sem er nánari útfærsla á aðalnámskrá og tekur mið af sérstöðu skóla og skólastefnu sveitarfélagsins. 

Fagmennska og fagþróun
Grunnurinn að faglegu skólastarfi felst í góðu starfsfólki. Stjórnendur leggja línur fyrir gott, virðingavert og agað skólastarf nemenda og starfsfólks. Áhersla skal lögð á að í skólunum starfi vel menntað og hæft starfsfólk í faglegu umhverfi. Í síbreytilegu umhverfi er mikilvægt að starfsfólki bjóðist tækifæri til símenntunar. Bolungarvíkurkaupstaður leggur sitt af mörkum með því að styðja starfsfólk til náms og til endur- og símenntunar.  

Velferð og vellíðan
Skólar í Bolungarvíkurkaupstað leggi áherslu á velferð og vellíðan nemenda og starfsfólks. Mikilvægt er að leggja grunn að heilsu-samlegum lífstíl strax við upphaf skólagöngu og skulu skólarnir hafa það að leiðarljósi. Nemendur fái fjölbreytt tækifæri til daglegrar hreyfingar og útiveru. Lögð er áhersla á að fylgt sé ráðleggingum Embættis landlæknis við gerð matseðla í mötuneyti.  Góð aðstaða í skólum Bolungarvíkurkaupstaðar sé vistlegt og vel skipulagt umhverfi og aðstaða sem stuðli að námsáhuga, hreyfingu, árangri og sköpunargleði, tengd tækni og tækninýjungum. 

Náttúra og nærsamfélag
Í skólastarfi skal unnið með þá sérstöðu sem skólarnir búa við, nálægð við náttúru og landslag, sem jafnframt má tengja við hreyfingu og útiveru. Þá nýti skólarnir sér stærð samfélagsins til hverskonar samvinnu ásamt því að efla samstarf við atvinnulíf í Bolungarvík. Leggja skal áherslu á að nemendur öðlist staðgóða þekkingu á nánasta umhverfi , sögu þess og sérkennum. 

Heimili og frístundir
Lögð skal áhersla á gott samstarf skóla, foreldra og frjálsra félagasamtaka á sviði tómstunda og íþrótta. Leitast skal við að samræma skóla-, íþrótta- og tómstundastarf þannig að sem mest samfella verði hjá nemendum. Bolungarvíkurkaupstaður telur mikilvægt að skólarnir sinni markvissu forvarnarstarfi í samvinnu við foreldra og aðra þá aðila sem lagt geta sitt að mörkum. Í forvarnarstarfi sem og öllu öðru skólastarfi er mikilvægt að foreldrar láti sig nám og tómstundir barna sinna varða. 

Kennsluhættir
Bolungarvíkurkaupstaður leggur áherslu á að í skólastarfi taki kennsluhættir ávallt mið af þroska og hæfni nemenda og styður við nýbreytni í skólastarfi og kennsluháttum sem miða að því að koma til móts við þarfir einstaklinga. 

Námið
Í skólum Bolungarvíkurkaupstaðar er lögð áhersla á færni í kjarnagreinum en jafnframt sérstök áhersla á læsi í víðasta skilningi. Taka skal tillit til þarfa einstaklingsins við skipulag náms og koma til móts við hæfileika hans eins og kostur er. Leggja skal áherslu á sköpunargleði, sjálfstæði og skapandi verkefnavinnu í samspili við tækni og tækninýjungar.  

Leikskólinn
Leggja skal áherslu á félagsleg samskipti í gegnum leik og skapandi starf á mikilvægu þrosaskeiði einstaklingsins. Fagleg og skipulögð starfsemi skal veita nemandanum vellíðan, öryggi og  aukið sjálfstraust. Í leikskólanum er lagður grunnur að menntun nemandans og hann undirbúinn fyrir næsta skólastig. 

Grunnskólinn
Hlutverk Grunnskólans í Bolungarvík er að búa nemendur undir líf og starf í samvinnu við heimilin. Skólinn skal hafa lýðræði, umburðarlyndi og víðsýni að leiðarljósi í öllum sínum störfum. Skólinn á að stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins og efla áhuga nemenda og löngun til frekari menntunar. Skólastarfið skal grundvallast af sjálfstæði, skapandi hugsun og hæfni nemenda til að vinna saman. 

Tónlistarskólinn
Hlutverk Tónlistarskóla Bolungarvíkur er að bjóða uppá fjölbreytt tónlistanám þar sem nemendur öðlast færni á sviði hljóðfæraleiks, samspils, söngs og tónfræðigreina. Með tónlistarnámi fá nemendur tækifæri til að koma fram á tónleikum og taka þátt í almennu tónlistarlífi í samfélaginu. Með þátttöku í tónlistarnámi öðlast nemendur aukið sjálfstraust, einbeitingu og aga. Allir íbúar Bolungarvíkur hafa kost á að stunda nám við skólann. 

Foreldrar
Í öllu skólastarfi er það meginforsenda árangurs nemenda að foreldrar séu virkir þátttakendur í skólagöngu barnsins, fylgist með framvindu, styðji og hlúi að. Í þeirri vegferð allri skiptir miklu máli að gagnkvæmt traust ríki í samskiptum foreldra og starfsfólks skólanna.

Mat og eftirfylgni
Skólastefnan skal endurskoðuð árlega ásamt innra mati skólanna. Fræðslumála- og æskulýðsráð  þarf að samþykkja skólastefnu Bolungarvíkurkaupstaðar.


Samþykkt í bæjarstjórn 19. nóvember 2015