Selvadore Rähni - skólastjóri
Selvadore er klarínettleikari og skólastjóri skólans, GSM 863 5286, selva@bolungarvik.is.
Hann er með meistara- og doktorsgráðu frá Þýskalandi og hefur komið fram sem einleikari víða í Evrópu og Japan í borgum eins og Berlín, Stuttgart, Karlsruhe, Tallinn, Pärnu, Tarragona, Moskvu, Kyoto, Osaka og Tókíó. Alls staðar hefur hann fengið mikið lof en notið hvað mestrar viðurkenningar í Japan.
Árið 1997 fékk Selvadore sem fyrstur eistneskra tónlistarmanna lífstíðarsamning við Kyoto Sinfóníuhljómsveitina í Japan og var ráðinn sem fyrsti klarínettleikari. Því starfi gegndi hann til ársins 2005. Með Kyoto Sinfóníuhljómsveitinni lék hann inn á upptökur fyrir Arte Nova hljómplötufyrirtæki og fyrir japanska sjónvarpið og útvarpið.
Hann er vel metinn hljómsveitarleikari og hefur leikið einleik sem gestaleikari með mörgum þekktum hljómsveitum, þar á meðal með Kammersveit Pforzheim og Württemberg, Pólsku og Tékknesku kammersveitinni, Sinfóníuhljómsveit Eistlands, alþjóðlegri hátíðarhljómsveit Yamanami og Osaka hátíðarhljómsveit.
- Frá 2010 hefur hann verið tónlistarskólastjóri í Bolungarvík.
Selvadore er einnig tónskáld og árið 2023 gaf Edition49 í þýskalandi út píanóalbúm með píanóverkum hans.
Nám og starf
- 1983-1986 stundaði Selvadore klarinettnám við Georg Ots Tónlistarskólann í Tallinn. Hann var nemandi hjá Aleksander Rjabov og Illar Aigro og vann þá þegar til fjölda verðlauna.
- Árið 1984 varð hann í fyrsta sæti í keppni ungra klarinettleikara í Tallinn.
- Aðeins 16 ára lék hann einleik í Klarínettkonsert eftir W. A. Mozart bæði í Eistlandi og á alþjóðlegri tónlistarhátíð í Moskvu.
- Árið 1989 vann hann 17 ára gamall samkeppni til stöðu fyrsta klarínettleikarans í Blásarasveit Tallinnborgar og nokkrum árum seinna einnig í Sinfóníuhljómsveit Sankti-Pétursborgar og Eystrasaltslandanna og lék með þeirri hljómsveit í bæði Pétursborg og París.
- 1986-1991 nam hann við Tónlistarháskólann í Tallinn hjá Rain Karin og Vahur Vurm.
- 1989-1991 var hann viðloðandi Sinfóníuhljómsveit Eistlands og lék á tónleikaferðum til Þýskalands, Finnlands, Svíþjóðar og Rússlands.
- Í samkeppni eistneskra blásturshljóðfæraleikara árið 1990 fékk hann viðurkenningu sem besti blásturshljóðfæraleikari Eistlands.
- 1990-1991 nam hann við Eistnesku Hugvísindakademíuna.
- Árið 1991 útskrifaðist hann úr Tónlistarháskólanum í Tallinn með láði. Síðan 1991 hefur Selvadore búið utan Eistlands.
- 1991-2001 stundaði Selvadore meistara- og doktorsnám í klarinettleik í Tónlistarháskólanum í Karlsruhe hjá prófessor Wolfgang Meyer.
- Á námsárinu 1996-1997 var hann aðstoðarkennari hjá prófessor Meyer við sama háskólann. Hann útskrifaðist þaðan árið 2001 með láði.
- 1993-1997 sótti Selvadore reglulega endurmenntun til prófessors Alain Damiens í París.