Saga skólans

Tónlistarskóli Bolungarvíkur var settur í fyrsta sinn 1. október 1964. 

TónlistarskóliÁður hafði Sigríður Norðquist sem starfaði þá sem organisti við Hólskirkju leiðbeint nemendum með stuðningi Hólshrepps um nokkurra ára skeið.

Þá um sumarið eða þann 10. júní 1964 hafði Tónlistarfélag Bolungarvíkur verið stofnað. Helsta markmið og tilgangur félagsins var einmitt að stofna og reka tónlistarskóla, ásamt því að efla almennt tónlistarlíf í Bolungarvík og fá innlent og erlent listafólk til tónleikahalds í bænum. Fyrir stofnun félagsins og skólans hafði Sigríður Norðquist, organisti við Hólskirkju í Bolungarvík, leiðbeint tónlistarnemendum með stuðningi Hólshrepps um nokkurra ára skeið.

Fyrsti formaður Tónlistarfélags Bolungarvíkur var Benedikt Bjarnason framkvæmdastjóri og gegndi hann forystu bæði í félaginu og stjórn skólans fyrstu árin. Örstutt handskrifað bréf til Benedikts frá Sigurði Bjarnasyni frá Vigur, alþingismanni, dagsett 6. febrúar 1964, varpar nokkru ljósi á undanfara stofnunar félagsins og skólans. 

Þar segir:

Góði vinur, sendi þér hér með lögin um stuðning við tónlistarskóla. Nú verðið þið að koma ykkar skóla á laggirnar fyrir haustið. Fimmtán þúsund króna framlagið til Ólafs Kristjánssonar verðum við að fá til bráðabirgða með víxilláni, sem síðan greiðist af framlagi ríkissjóðs til skólans. Ef þið sendið mér víxil skal ég selja hann.

Í byrjun skólastarfsins fyrir fjórum áratugum voru eftirtalin hljóðfæri keypt til skólans fyrir tilstyrk Hólshrepps (þá hafði sveitarfélagið ekki enn öðlast kaupstaðarréttindi): Trompett, klarinett, þverflauta og básúna, eitt af hverri tegund.

Fyrsta skólaárið voru 30 nemendur í skólanum. Þar af lærðu 22 á píanó, 1 á harmoníum, 3 á blásturshljóðfæri (saxófón og klarinett) og 4 á harmoniku. Auk þess fór fram kennsla í tónfræði. Eitt foreldrakvöld var haldið og auk þess almennir tónleikar við skólaslit.

Árið 1964 flutti Ólafur Kristjánsson málarameistari og tónmenntakennari til Bolungarvíkur. Sama haust hófst eiginlegt starf skólans. Ólafur var ráðinn fyrsti skólastjórinn og gegndi því starfi til loka árs 1988. Skólinn var stofnaður fyrir tilstilli Tónlistarfélags Bolungarvíkur, og starfaði á ábyrgð þess fram til ársins 1981, að bæjarsjóður Bolungarvíkur tók yfir reksturinn hvað varðaði launagreiðslur til skólastjóra og kennara. 

Árið 1989 tók síðan Bolungarvíkurkaupstaður að öllu leyti við rekstri skólans að ósk Tónlistarfélagins. 

Starfsemi skólans fór fyrst og fremst fram á heimilum skólastjóra og kennara allt fram til ársins 1989 þegar skólinn fékk eigið húsnæði til umráða. Það var hluti af húsnæði við Hafnargötu 37. Þar voru þrjár kennslustofur en auk þess hafði skólinn afnot af kennslustofu í Grunnskólanum til hópkennslu. Árið 1993 var starfsemi skólans svo flutt í það húsnæði sem hýsir hann í dag. Það var tekið í notkun í tveimur áföngum. Það er gamli grunnskólinn við Skólastíg 3. Elsti hluti hússins tilheyrir þó ekki skólanum enn sem komið er. 

Skólastjórar tónlistarskólans frá upphafi hafa verið:

  • 1964-1988 Ólafur Kristjánsson
  • 1988-1994 Guðrún Bjarnveig Magnúsdóttir
  • 1994-1998 Hannes Baldursson
  • 1998-2003 Soffía Vagnsdóttir
  • Kristinn Jóhann Níelsson
  • Mariola Kowalczyk
  • Hrólfur Vagnsson
  • Selvadore Rähni

Stjórn og skipulag

Tónlistarskólinn er rekinn af Bolungarvíkurkaupstað. Hann heyrir undir fræðslumálaráð sem síðan heyrir undir bæjarstjórn. Reglulegir fundir eru haldnir með fræðslumálaráði varðandi stjórn og rekstur skólans og gott samkomulag er við bæjaryfirvöld. 

Í öllu starfi skólans er tekið eindregið tillit til starfsemi grunnskólans. 

Kennarar frá upphafi

  • Anna Kjartansdóttir
  • Arna Gísladóttir
  • Davíð Ólafsson
  • Elzbieta Kowalczyk
  • Gísli Magnússon
  • Guðmundur Norðdahl
  • Gunnar Björnsson
  • Gyða Halldórsdóttir
  • Hannes Baldursson
  • Haraldur Bragason
  • Harpa Henrýsdóttir
  • Karl Hallgrímsson
  • Karl Sighvatsson
  • Kristinn Jóhann Níelsson
  • Kristján Þór Bjarnason
  • Leslaw Szyszko
  • Mariola Kowalczyk
  • María Kyriakou
  • Martha Hlín Magnadóttir
  • Málfríður Sigurðardóttir
  • Michael A. Jones
  • Ólafur Kristjánsson
  • Ralph Hall
  • Sigríður Norðquist
  • Soffía Vagnsdóttir
  • Tómas Guðni Eggertsson
  • Vadim Fyodorov
  • Zbigniew Jaremko